Sagan

Þó flest íslensk þorp við sjávarsíðuna séu hvert öðru lík er þó eitt sem greinir Búðakauptún við Fáskrúðsfjörð frá flestum hinna, en það er það tímabil í sögu okkar Íslendinga þegar franskir sjómenn sóttu íslandsmið.

Ein af fáum aðalbækistöðvum frönsku sjómannanna hér við land var á Fáskrúðsfirði. Er ætlað að þetta tímabil hafi staðið frá síðari hluta 19. aldar og þar til að síðustu skúturnar fóru héðan á seinni hluta fjórða áratugs tuttugustu aldar. Þau tengsl sem þarna mynduðust milli Fáskrúðsfirðinga og frönsku sjómannanna, sem flestir komu frá Bretanskaga, hafa verið það sterk að minningarnar hafa ekki fallið í gleymsku.

Tengslin urðu til þess að þann 18. ágúst 1991 var formlega komið á vinarbæjartengslum við bæinn Gravelines í Frakklandi, en Gravelines er um 15.000 manna bær í norður Frakklandi. Í sáttmála sem undirritaður var lýsa aðilar vilja sínum "…til þess að halda lifandi sögu strandsvæða Gravelines og Íslands" og einnig að gerðar verði allar mögulegar ráðstafanir til að halda vináttu- og samvinnuböndum milli þessara aðila í þágu íbúa beggja staðanna. Er það vilji beggja aðila að tengslin þróist fyrst og fremst í formi unglingasamskipta og að viðhalda sameiginlegri menningarsögu eða eins og segir í samkomulagi þessara aðila þá óska þau "…þess að neytt verði allra ráða til þess að kom á sambandi milli bæjarráðsmanna, opinberra stofnana, félaga og samtaka, einkum á sviði efnahags- og félagsmála, skólamála, menningar og íþróttamála" auk þess að "Með þessu íslenska-franska framtaki leggi Búðahreppur og Gravelines sitt af mörkum til að efla samskipti þjóða, tryggja frið í heiminum og verja lýðræðislegt frelsi og mannréttindi borgara heims". Hafa nokkur samskipti átt sér stað á þessum nótum, unglingar farið héðan frá Fáskrúðsfirði til Gravelines og síðan komið unglingar frá Gravelines til Fáskrúðsfjarðar, en einnig hafa sveitarstjórnarmenn þessara staða skipst á heimsóknum.

Í Gravelines er árlega haldin "Hátíð íslandssjómanna" í lok september og er þetta mikil hátíð og er óhætt að segja að það hafi komið íslendingunum sem farið hafa á þessa hátíð á óvart hversu ofarlega minningin frá þessum tíma er í huga þessa fólks. Má leiða að því líkur að minningin sé eins sterk og raun ber vitni vegna þeirrar miklu spennu sem ríkti og sveiflu milli sorgar og gleði þegar bátarnir snéru aftur heim og í ljós kom hvort ástvinur átti afturkvæmt eftir langa dvöl á fjarlægum miðum eða hvort þeir báru sorgarfréttir heim til ástvina.

Gravelines er stöndugur bær, þarna er stórt kjarnorkuver, ein stærsta fiskeldisstöð í Frakklandi, og þó víðar væri leitað, álver er að hluta á umráðasvæði bæjarins og margt fleira. Mikill iðnaður er á þessu svæði og nærliggjandi byggðarlögum en það sem gerir Gravelines sérstakan bæ er sú umgjörð sem bærinn hefur. Hann er í raun gamalt virki sem umgirt er síki allan hringinn og skapa þessar andstæður nútíma og gamla tímans sérstakt andrúmsloft sem gaman er að upplifa. Gravelines er í nábýli við tvo bæi, Fort Philip og Grand Fort Philip og fyrir leikmann er ekki alltaf gott að segja hvenær við stígum yfir bæjarmörkin, en þetta er glaðvært og vinalegt fólk sem gott er heim að sækja.

Bæjarstjóri í Gravelines er Hr. Bertrand Ringot.

Bækistöðvar Fransmanna á Íslandi; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1965 Bækistöðvar Fransmanna á Íslandi; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1965 Fiskimennirnir létu á 4 árum eftir sig 2000 ekkjur og börn

Prenta | Netfang